Hin fimmtán fræknu ........

…. á ferð í Færeyjum.

Eygló Aradóttir ritar:Það var ekki vorlegt, veðurfarið á Íslandi, þegar hin fimmtán fræknu fetuðu sig út í Airbus þotu

Atlantic Airways á Reykjavíkurflugvelli snemma morguns. Fólk kom fannhvítt, raunverulega fannhvítt, inn í þotuna, því það snjóaði þennan maímorgun.Það voru allir glaðvakandi því norðanáttin var svo stíf, en líka af spenningi fyrir ferðinni sem var að hefjast. Fimmtán félagsmenn Bliks ljósmyndaklúbbs, vopnuð græjum af ýmsum stærðum og gerðum, ætluðu að eyða 4 dögum í Færeyjum, við að ljósmynda landslag, byggingar og mannlíf þessara 18 eyja.


Flugið gekk vel fyrir sig, nema að sumir höfðu á orði að flugmaðurinn hefði stigið heldur hressilega á bremsurnar þegar lent var í Vogum, en honum til varnar má líklega telja að flugbrautin í Færeyjum er ekki mjög löng. Færeyingar hleyptu öllum inn í landið og við tók ökuferð til Þórshafnar hvar við áttum pantað gistirými á Hotel Hafnia, sem eins og nafnið gefur til kynna, er ekki nema nokkur skref frá höfninni, en reyndar er flest í Þórhöfn bara nokkur skref í burtu. Við skráðum okkur inn á fínasta hótel Þórshafnar og fengum ágætis herbergi með minibar og alles og góðu útsýni þar að auki.

Þar sem Færeyjar teljast ekki sjálfstætt ríki, þó þær séu það í raun nema að danir lána þeim utanríkisþjónustu og dómsvald, þá getur Ísland ekki verið með sendiráð í Færeyjum, dönum myndi svelgjast á bjórnum sínum vegna þess, því rekur Ísland konsulat, ræðismannsskrifstofu í Þórshöfn, og einn úr hópnum, fréttahaukurinn Magnús Hlynur, hafði reddað okkur kaffi og meððí á föstudeginum. Þar fengum við beint í æð niðurstöður utanríkisþjónustunnar um eðli færeyísks samfélags fyrr og nú. Eftir þann fyrirlestur fóru ýmsir að lesa fasteignaauglýsingar í Færeyjum enda ku drjúpa smjér af þeim stráum sem fyrirfinnast í Færeyjum, og það er sko ekki írskt smjér. Við komum færandi hendi til ræðismannsskrifstofunnar, ljósmynd sem tekin var af Þorsteini Egilsyni félaga í Blik, til þess að skenkja þeim. Kærar þakkir til þeirra sem gáfu okkur myndina.

Baldvin Þór Harðarson tók við myndagjöf Bliks úr höndum Sólveigar formanns

Mannlífið og myndefnin biðu utandyra og fólk


fylkti liði um götur og stíga og húsasund það sem eftir lifði dagsbirtu föstudagsins. Sólin var í felum bak við ský en það var þurrt og nokkrum gráðum hlýrra en á Íslandi, en strekkingur svo það reyndi nokkuð á hristivarnir véla og linsa.

Á laugardeginum voru veðurguðirnir í fremur vondu skapi og helltu úrhellisrigningu úr skálum reiði sinnar yfir okkur og færeyinga og aðra ferðamenn, svo að minna varð af ljósmyndun. Hluti hópsins ákvað að bjóða veðri og vindum byrginn og þramma í SMS - MOLLIÐ - í Þórshöfn á laugardeginum og týndist þar um tíma, en komu svo í leitirnar aftur og þá var ákveðið að leita uppi Norðurlandahúsið, nokkrum flíkum ríkari og nokkrum dönskum eða færeyískum krónum fátækari.


Norðurlandahúsið átti að vera örskammt frá mollinu, sem það náttúrulega er, enda stutt í allt í Þórshöfn, en þegar vindurinn og regnið lemur á fólki þá vilja vegalengdir lengjast úr hófi. Það var göngumóður og holdvotur hópur sem vatt sér inn í Norðurlandahúsið eftir að hafa horft á eftir strætó (sem nota bene er gjaldfrjáls innan Þórshafnar) aka framúr sér og átta sig á því að þessi bláa rúta sem stóð við stoppistöðina hjá SMS var víst strætó. Strætóar eru sumsé ekki gulir allsstaðar þó þeir séu það á Íslandi.


Mosavaxinn veggur